Orðræða, áherslur og femínismi Emmu Watson

Í bók sinni “Don’t Think of an Elephant” biður George Lakoff (2004) lesendur um að gera nákvæmlega það; ekki hugsa um fíl. Lakoff heldur því hins vegar fram að það geti enginn orðið við þessari bón hans því um leið og bónin er lesin kallar lesandinn fram ímyndaðan fíl í höfði sínu sem er ekki á því að láta sig hverfa svo auðveldlega. Á sama hátt eru til orð eða orðatiltæki sem hafa hugrenningartengsl við einhvern ákveðin hlut, tilfinningu eða ástand hjá hverjum og einum. Lítum á orð eins og skattbyrði og greinum það aðeins. Það er erfitt að burðast með eitthvað. Hver sem sú byrði er sem liggur á þér þá er hún íþyngjandi og þú vildir gjarnan án hennar vera. Að því gefnu gefur það augaleið að þegar við leggjum þessa neikvæðu merkingu við skatt og fáum skattbyrði að þá dregur hugur okkar upp þá mynd að skatturinn, líkt og hver önnur byrði, sé okkur til ama. Það velur enginn að bera einhverja byrði heldur neyðumst við til þess.

Hver og einn þarf hins vegar ekki að hafa sömu hugrenningartengsl til sama orðsins. Þannig kallaði ég ekki fram einn fíl heldur óteljandi fíla í upphafi pistilsins í hugum ykkar. Einhver ykkar sáu fyrir sér afrískan fíl, aðrir indverskan, sumir Dumbó og einhverjir hana Nellý. Í hvert sinn sem við notum orð til að tjá okkur erum við i raun að fórna einhverjum hluta af upplifun okkar til þess að geta tjáð öðrum hana. Við getum aldrei verið viss um hvaða fíll mun dúkka upp í huga þess sem við tölum við en það er áhætta sem við erum tilbúin að taka til að geta átt samskipti. Einn af þeim fræðimönnum sem hefur fjallað um þessi umskipti milli upplifunar og orða og þeirrar fórnar sem þau eru er Weick (2011). Hann vill meina að mismunandi rammar einstaklinga á lífið valdi þessari stöðugu togstreitu milli upplifunar og tjáningar. Allt í fari einstaklinga, hvort sem það er aldur, kyn, upplifanir eða hvað annað myndar ramma þeirra á lífið. Rammarnir eru þau gleraugu sem hver og einn lítur á lífið í gegnum. Slíkir rammar,  sjónarhorn á lífið, geta verið sterkir og erfitt getur reynst að brjóta þá. Með öðrum orðum getur reynst erfitt að kynna einstaklinga fyrir nýjungum eða sannfæra þá um eitthvað sem gengur gegn sýn þeirra á lífið. Snow o.fl. (1986) vilja þó meina að með því að nýta sér ramma sé hægt að fá einstaklinga til að beita sér fyrir málefnum sem þeir annars hefðu ekki hugsað sér að gera. Þetta er mögulegt með því að nota gildi eða skoðanir sem falla inn í ramma einstaklinga og sýna þeim hvernig þau gildi eða skoðanir falla að gefnu málefni hverju sinni. Þetta hafa ótal margir foreldrar nýtt sér í gegnum tíðina með því að stinga upp á því við börnin sín að þau eigi að hugsa til barnanna í Afríku og klára nú matinn sinn. Það gefur augaleið að samhugur með sveltandi börnum og manngæska eru gildi sem allir foreldrar vilja meina að þeir hafi innrætt í börnum sínum og því ættu þau gildi að duga til að hvetja barnið til að borða.

Hér er komið að þætti Emmu Watson í þessum pistli. Emma Watson hélt nýverið ræðu sem farið hefur eins og eldur í sinu um netheima og í kjölfar hennar var netátakinu heforshe hrint af stað af hálfu Sameinuðu Þjóðanna. Þar reynir hún að endurskilgreina femínisma sem hugtak sem á samleið með römmum margra þeirra sem hafa afskrifað hugtakið í huga sínum. Hugtakið er margslungið og hefur vafalaust mun misleitari hugrenningartengsl milli einstaklinga en flest önnur. Emma Watson reynir því að nota sterk gildi sem hún telur að ætti að falla inn í ramma sem flestra til að fá einstaklinga til að taka afstöðu með femínisma á nýjan leik.

“For the record – Feminism by definition is: The belief that men and women should have equal rights and opportunities. It is the theory of the political, economic and social equality of the sexes. […] These rights I consider to be human rights”

Hér tengdi hún mannréttindi, sem er sterkt gildi, beint við femínisma og stillir því hugtakinu upp á þann hátt að sért þú á móti femínisma þá hljótir þú einnig að vera á móti almennum mannréttindum allra. Seinna í ræðunni tvinnar hún annað öflugt og hugsanlega sterkara gildi saman við femínisma, frelsi einstaklingsins.

“If we stop defining each other by what we are not and start defining ourselves by what we just are – we can all be freer and this is what HeForShe is about. It’s about freedom.”

Með þessum skírskotunum til frelsis og mannréttinda reynir Emma Watson að fá þig til að líta þannig á að sért þú stuðningsmaður frelsis og mannréttinda hljótir þú að vera femínisti og á sama hátt að sért þú á móti femínisma þá hljótir þú að vera andsnúinn frelsi og almennum mannréttindum.

Það er erfitt að brjóta ramma á bak aftur og ætlast til að breyta þeim. Áhrifaríkara getur reynst að endurskilgreina þá þætti sem þú vilt koma inn í ramma annarra á þann hátt að þættirnir séu þeim þóknanlegir. Áhugavert verður að sjá hvernig Emmu Watson og heforshe herferð Sameinuðu Þjóðanna mun vegna en ljóst er að orðaval og áherslur okkar í tali skipta höfuðmáli þegar kemur að því að sannfæra aðra.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s