Erum við skynsöm?

Í síðustu viku kom Hjálmar, rit hagfræðinema við Háskóla Íslands út. Blaðið er stórgott og ég mæli með því að allir kíki á það. Ég var beðinn um að skrifa grein byggða á B.A. ritgerð minni sem fjallaði um hagfræðilega ákvörðunartöku einstaklinga. Ég ætla að birta greinina hér en hvet alla til að kíkja á Hjálma í heild sinni:

Erum við skynsöm?

Vangaveltur um uppruna og ákvörðunartöku hins hagræna manns, homo economicus.

Hagfræðin hefur frá upphafi snúist um verðmyndun sem verður til sökum ákvörðunartöku einstaklinga . Virði vöru eða þjónustu á tímabili klassískrar hagfærði var metið út frá kostnaði allra framleiðsluþátta sem tóku þátt í að mynda hana og koma til neytandans. Virði mjólkur var því allur kostnaður bóndans við framleiðslu hennar og dreifingu, hvort sem um mjólkunina eða dreifingu hennar var að ræða. Eitt af aðalvandamálum þessarar sýnar var að verð vöru á markaði endurspeglaði ekki alltaf virði hennar samkvæmt skilningi klassískrar hagfræði, það er framleiðslukostnaði. Þegar nýklassísk hagfræði ruddi sér rúms leituðust hagfræðingar við að leysa þetta vandamál með því að líta í auknum mæli á rekstrareiningar samfélagsins líkt og verð, framboð, eftirspurn og gróða sem tengdist sérstökum vörum eða þjónustu. Virði vöru og þjónustu var ekki lengur metið út frá framleiðslukostnaði. Með nýrri nálgun var stuðst við nyt einstaklings af þeirri vöru eða þjónustu sem hann neytti og það notað til að meta virði hennar. Með nytjum er átt við þá ánægju eða hamingju sem einstaklingar upplifa við að nota vöruna eða þjónustuna. Framleiðslukostnaður vék fyrir jaðarnytjum sem hornsteinn virðismats nýklassískrar hagfræði. Jaðarnyt segja til um það notagildi, eða ánægju, sem einstaklingur hefur af næstu einingu af vöru eða þjónustu sem hann neytir. Greining á jaðranytjum og –hegðun einstaklinga leysti að miklu leyti vandamál klassísku hagfræðigreiningarinnar varðandi raunhæfa lýsingu á hegðun einstaklinga á markaði. Nýklassísk greining gerir ráð fyrir því að einstaklingar hámarki nyt sín, þ.e. velji alltaf þann kost sem veitir þeim mesta ánægju fram yfir alla aðra. Oft er talað um nýklassíska einstaklinginn sem hinn hagræna mann, eða homo economicus. Hann vegur og metur ákvarðanir sínar út frá nytjum sínum og hugsar á jaðrinum. Hámörkun eins og hinn hagræni maður framkvæmir krefst eftirfarandi forsenda:

  1. Einstaklingar hafa smekk og valröðun sem helst alltaf óbreytt.
  2. Einstaklingar hámarka hag sinn.
  3. Einstaklingar haga sér sjálfstætt og hafa fullkomnar og viðeigandi upplýsingar.

Með öðrum orðum tákna þessi skilyrði það að einstaklingar vita hvað þeir vilja, velja alltaf það sama í sömu aðstæðum, vita allt og gera allt til að hámarka eigin hag.

 Ákvörðunartaka einstaklinga í reynd

Ákvörðunartaka hins hagræna manns hefur frá upphafi verið gagnrýnd en á undanförnum áratugum hefur sú gagnrýni aukist til muna. Bent hefur verið á ýmsar hindranir sem koma í veg fyrir að einstaklingar geti tekið ákvarðanir á jafn hagkvæman hátt og hin nýklassísku fræði gera ráð fyrir. Ósamhverfar upplýsingar, þar sem t.d. söluaðili veit meira um vöruna sína en kaupandi, er dæmi sem er flestum augljóst en mörg smærri og duldari atriði geta líka haft áhrif. Sálfræðilegar hneigðir (e. biases), boð (e. heuristics) og innrömmun vandamála (e. framing) eru dæmi um þær hindranir sem verða á vegi einstaklinga í hagfræðilegri ákvörðunartöku.

Þegar einstaklingur fer í gegnum skynsamlegt ákvörðunartökuferli þarf hann að svara fjórum spurningum; Hvaða aðgerðir eru mögulegar, hvaða mögulegu afleiðingar geta aðgerðirnar haft og hversu líkleg er hver þeirra, hversu miklu máli skipta þær afleiðingar þann sem tekur ákvörðunina og hvernig á að velja milli mögulegra aðgerða með tilliti til væntra gilda afleiðinga þeirra? Ef litið er til forsenda nýklassískrar hagfræði hefur sá sem tekur ákvörðunina fullkomnar upplýsingar og veit því um allar mögulegar aðgerðir ásamt því að gera sér grein fyrir öllum mögulegum afleiðingum hverrar þeirra og veit hverjar líkurnar á því að hver þeirra muni eiga sér stað eru. Nóbelsverðlaunahafanum Herbert Simon, líkt og mörgum öðrum, vildi meina að þessar forsendur gangi ekki upp sé litið til raunverulegrar ákvörðunartöku. Hann vildi meina að rökhyggja einstaklinga sé ekki fullkomin heldur búa einstaklingar yfir takmarkaðri rökhyggju (e. bounded rationality). Takmörkuð rökhyggja er tilkomin sökum þess að einstaklingar búa ekki yfir fullkomnun upplýsingum né hafa þeir getu til að vinna úr miklu magni af upplýsingum. Flestir virðast hneigja ákvörðun sinni sökum einhverra, sýnilegra eða duldra, líffræðilegra takmarkana á úrvinnslu upplýsinga og James March fullyrðir að takmarkaða rökhyggju megi helst rekja til takmarkaðrar athygli, minnis, skilnings og samskiptahæfileika.

Rannsóknir benda til þess að einstaklingar sem standa frammi fyrir ákvörðunartöku hámarki ekki hag sinn heldur fullnægi frekar fyrirfram ákveðnum lágmarksskilyrðum. Sökum takmarkaðrar rökhyggju gera einstaklingar sér ekki grein fyrir öllum valmöguleikum sem þeir hafa né bera þeir þá saman samtímis. Í stað þess því að bera saman alla þætti allra valmöguleikana velja einstaklingar nokkra þætti, ákvarða hver lágmarksskilyrði eru til þess að fullnægja þeim og velja fyrsta möguleikann sem fullnægir öllum lágmarksskilyrðunum. Lítum á dæmi yfirmanns sem hefur yfir 100 starfsmönnum að ráða og þarf að ráðstafa einum þeirra í nýtt verk. Gefum okkur að 1 af þessum 100 starfsmönnum hámarki verkið en 50 fullnægi grunnskilyrðum þess. Ef yfirmaðurinn leitar einungis að fullnægjandi lausn við vandamálinu eru því einungis um 2% líkur á því að hann velji starfsmanninn í verkið sem hámarkar virði þess. Auk þess sem einstaklingar virðast fullnægja frekar en hámarka ákvörðunartöku sína eru einnig fjölmargar hneigðir og boð sem hafa áhrif á ákvörðunartöku þeirra og skekkja hana enn frekar eða koma jafnvel í veg fyrir að ákvörðunin fari í gegnum ákvörðunartökuferlið. Niðurstöður rannsókna sýna þannig að við bregðumst við flækjustigi flestra ákvarðana með ósjálfráðum vana. Þessi vanabundnu viðbrögð, sem nefnast boð, eru til dæmis þau sem segja okkur að hlutur sé nálægt okkur ef við sjáum hann skýrt en langt frá okkur sé hann óskýr. Líkt og flest önnur boð nýtist þessi sjálfvirka úrvinnsla upplýsinga, byggð á vana, okkur vel í flestum tilfellum en einstaka sinnum geta hlutir verið óskýrir þrátt fyrir að vera nálægir. Í háloftunum gerist þetta oftar en ella og þar geta þessi boð haft slæmar og afdrifaríkar afleiðingar fyrir flugmenn. Flugmenn eru því þjálfaðir í að hætta að treysta boðum sínum og meta fjarlægð á fleiri vegu. Slíkir „gallar” sem búa innra með okkur eru margir hverjir mistök skynfæra okkar. Einnig eru til sálrænar hneigðir sem skekkja hegðun okkar. Þar sem allir þessir gallar eru innbyggðir í hugsun okkar tökum við ekki eftir þeim og sökum þess eru þeir varasamir. Þeir hafa áhrif á hegðun einstaklinga án þess að þeir geri sér grein fyrir því nema að hugi að þeim sérstaklega. Ennfremur getur því reynst erfitt að venja okkur af þessum gölluðu boðum en eins og flugmaðurinn sem þarf að læra að meta fjarlægðir með fleiri tækjum en sjón sinni getum við lært að þekkja þá og bæta þá upp.

Akkeri (e. Anchoring) er dæmi um hneigð sem er mjög erfitt að taka eftir en Kahneman og Tversky komust að þeirri niðurstöðu að í mörgum tilfellum leysir fólk vandamál út frá einhverju upphafsgildi sem er svo aðlagað að lokalausn. Upphafsgildið þarf hins vegar ekki að vera tengt raunverulegri lausn vandamálsins á neinn hátt og getur breyst út frá framsetningu vandamálsins. Dæmi um slíkt vandamál er Genghis Khan próf svokallað en í því eru þátttakendur beðnir um að auðkenna sig með því að skrifa niður þrjá síðustu stafi símanúmers síns. Þeir eru næst beðnir um að svara því hvert dánarár Genghis Khan er og í ljós kemur að tilgáta þátttakendanna er í tölfræðilega mjög sterku sambandi við símanúmer þeirra. Þarna var einhver upphafsstærð í huga fólks sem það aðlagaði síðan að lokasvari sínu þrátt fyrir að augljóst væri að upphafsstærðin væri ótengd lausn vandamálsins. Mörg fleiri dæmi eru um slíkar hneigðir sem eru óljósar en geta þó haft mikil áhrif á ákvörðunartöku einstaklinga eins og t.d. ofurbjartsýni, þýðishneigð (e. representative bias) og aðgengishneigð (e. availability bias). Áhrif slíkra hneigða og boða gera ákvörðunartöku hins raunverulega einstaklings frábrugðna hins hagræna manns. Finna má dæmi sem kolfella allar þrjár grunnforsendur hámörkunar hins hagræna manns á ákvörðunartöku sinni.

Í bók sinni, Essays in Positive Econmics, færir Milton Friedman rök fyrir því að hagfræðilíkön ætti ekki að dæma á verðleikum forsenda þeirra heldur út frá einfaldleika þeirra annars vegar og nytsemi og forspárgildi þeirra hins vegar. Friedman tók frægt dæmi þar sem hann lýsti nýklassísku módelunum við leik billjarðspilara. Hann leikur eins og hann þekki allar þær flóknu hornafræði- og eðlisfræðireglur sem liggja að baki þess að finna réttu stefnu og hraða kúlnanna þó hann í raun geri það ekki. Á þann hátt má spá fyrir um leik hans með óraunverulegum forsendum á góðan og áreiðanlegan máta. Svör við þessari röksemdarfærslu benda á það að hér er Friedman einungis að lýsa færustu billjarðspilurum og að þessi greining á ekki við um meginþorra fólks. Einnig eru mistökin og samleikur milli tveggja spilara það sem blæs líf í leikinn en ekki fullkomnun hans. Til þess að geta sagt til um niðurstöðu leiksins þarf að einblína á annmarka spilarana og mistök þeirra.

Þegar öllu er á botninn hvolft er ljóst að forsendur fyrir ákvörðunartöku einstaklinga innan nýklassískra hagfræðilíkana bresta allar þegar litið er á raunverulegar ákvarðanir og atferli einstaklinga. Gagnrýnisraddir, byggðar á rannsóknarniðurstöðum, benda á hnökra nýklassískra hagfræðilíkana og nefna til að mynda þá blindni sem var fyrir efnahagshruninu sem skók heiminn fyrir örfáum árum því til stuðnings. Skoða þarf gaumgæfilega á nýjan hátt hvaða áhrif brostnar forsendur nýklassísku líkananna hafa á spágildi þeirra. Áhugavert verður að sjá þróun þessa sviðs á næstu árum og áratugum. Ljóst er að til þess að efla trú á hagfræðilegri greiningu þurfa hagfræðingar að rýna í líkön sín og komast að því hvort þau sé hægt að bæta eða að átta sig á og leggja áherslu á hverjar takmarkanir þeirra eru.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s